Feeds:
Posts
Comments

Posts Tagged ‘CCC’

Samfélagsmiðlar 2017

krakkar í öskudagsbúningum

öskudagurinn 2017 - krakkar sem snapchatfilterar

Í gær var Öskudagurinn og þá fara krakkar í búninga. Æfintýrapersónur og kynjaverur eru á sveimi. Það var á Rúv stutt viðtal við krakka sem voru í búningum klæddir eins og Snapchat fiterar, með kanínueyru og einhyrningahorn og hreindýr. Þannig er ævintýravera anno 2017, það ert þú sjálfur, þín eigin sjálfa umbreytt í kynjaveru. Þannig er líka líklegt að þróunin verði í samfélagsnetum þessa árs. Við sáum á seinasta ári leikinn Pokemon Go ná feikna vinsældum, fullorðnir og börn gengu upp að hnjám alls staðar þar sem spurnir voru af pókemonum og söfnuðu og öttu kappi við aðra.

En nú er komið að því að setja þig sjálfan inn í gagnaukinn veruleika (augmented reality) og gera það með félagsnetum og fyrstu fálmandi skrefin eru þú sem fígúra, þú sjálfur sem kynjavera, þú sem kanína eða górilla eða indjáni, að breyta þér. Snatchat er líka þessa dagana að gera tilraun með dróna sem þú lætur sveima yfir þér og tekur mynd af sjálfum þér. Þetta tvennt, þú sjálfur sem kynjavera og þú sjálfur ofan frá og allt um kring mun örugglega hafa áhrif á sögugerð í félagmiðlum, sögugerð sem nú er að þróast í miðlum eins og snapchat. Facebook er líka að prófa sams konar og hefur keypt appið Masquerade (MSQRD) sem einmitt umbreytir fólki svona. 

Samfélagsmiðlar og skólastarf

Í skólastarfi verðum við að fylgjast með þróun samfélagsmiðla. Hin stafrænu félagsnet eru orðin umgjörð utan um líf margra og líka vinnuumhverfi. Fyrirtækin eru að breytast og stjórnsýsla þeirra og umgjörð er að verða að stafrænu neti (sjá nánar pistillinn Slack – tölvupóstur og trufltækni) og samskiptamynstur okkar í tómstundum og einkalífi eru líka samofin samfélagmiðlum. Einkalíf okkar á Internetinu og netrölt okkar er vaktað af mörgum aðilum og kerfum sem nota það til að spá fyrir um hvernig við munum hegða okkur og bregðast við aðstæðum. Þetta er hluti af fyrirbæri sem kallast “deep learning” og þá er ekki átt við djúpt nám okkar heldur að núna geta vélar og tölvuforrit lært og greint mynstur, já og jafnvel talað við okkur og leiðbeint okkur. Og njósnað um okkur.

Skólinn sem samfélagsnet

Við í skólakerfinu þurfum að fylgjast með þróun félagsmiðla, bæði hvaða miðla börn og unglingar nota, hvaða miðlar henta í skólastarfi og til starfsþróunar kennara og hvort félagsmiðlar breyti skóla sem stofnun eins of upplýsingatæknifyrirtækjum – verður skóli framtíðarinnar ef til vill einhvers konar netveita og netumsýslukerfi?Við sjáum þróun í netskólum eins  Khanacademy, Coursera og Futurelearn og umsýslukerfum fyrir menntun eins Google Apps for Education og Seesaw. Verður námskeiðsumhverfi í fjarnámi  í nánustu framtíð fremur samfélagskerfi en kennslukerfi?

Frá Moodle yfir í Yammer – Frá kennslukerfi yfir í félagsnet

Ég hef í mörg ár notað ýmis konar kennslukerfi  sem fjarkennari og seinustu misserin kerfi sem margir íslenskir skólar nota þ.e. kennslukerfið Moodle. Það kerfi virkar vel ef við lítum á skólann sem verksmiðjurekstur sem miðlar efni til nemenda og tekur við gögnum frá þeim. En það er ekki gott samskiptanet. Væri ekki betra að nota kerfi eins og Slack eða Yammer sem umgjörð utan um fjarnám? Það gera upplýsingatæknifyrirtækin til að halda utan um verkefni og af hverju ætti ekki slík tól að nýtast eins í skólum þar sem námshefðin er verkefnamiðað nám (problem based learning) og tilviksnám (case studies). Núna í vetur hef ég notað samskiptakerfið Yammer (hluti af office365 kerfinu, lokað samskiptakerfi án auglýsinga sem líkist mjög facebook) samhliða Moodle og það er að mörgu leyti þjálla og nútímalegra en Moodle og eiginlega hægt að gera þar allt sem Moodle býður upp á nema halda utan um verkefnaskil nemenda og einkunnagjöf. En margir nemendur eru vanir þeim strúktúr sem kemur með kennslukerfum eins og Moodle og þurfa tíma til að aðlaga sig að námsumhverfi sem er félagsnet.

Félagsnet eru vinsæl námstól

Yammer og mörg fleiri félagsnet eru í efstu sætum 2016 á árlegum lista um tæknitól í námi Top 200 tools for learning og það er athyglisvert að núna er Youtube það tól sem er í fyrsta sæti og Twitter í þriðja sæti en bæði Yammer og Facebook eru í efstu sætum.

Twitter og Facebook

Íslenskt skólafólk notar bæði Twitter og Facebook mikið í sinni starfsþróun. Kennarar hafa póstað inn á Twitter undir tvíkrossinum #menntaspjall í almennu spjalli. Skólafólk hefur “hist” undanfarinn vetur á nokkurra vikna fresti á sunnudagsmorgnum á Twitter og notað tvíkrossinn/myllumerkið #menntaspjall og spjallað um ákveðin þemu. Íslenskt skólafólk og ýmsir kennarahópar hafa marga opna og lokaða facebook hópa t.d. spjaldtölvur í námi og kennslu og upplýsingatækni í skólastarfi. Þó facebook nýtist vel til að hafa samskipti milli kennara þá hentar opin og auglýsingaskrýdd útgáfa af facebook alls ekki sem umhverfi fyrir nemendur í skólastarfi, það er álíka að hafa námsumhverfi á facebook eins og að hafa kennslustofu út á gangi í stórmarkaði þar sem kaupmenn úr nærliggjandi verslunum öskruðu og hrópuðu tilboð um kostakaup og yfirgnæfðu alla námsumræðu og um sveimuðu aðilar sem söfnuðu gögnum um nemendur, gögnum sem nota ætti seinna til að dæla í þá kosningaáróðri og hafa áhrif á skoðanir og hegðun þeirra og hvert sjónmál og skref nemenda væri vaktað og tekið upp í óteljandi vefmyndavélum. Slíkt er ekki gott og öruggt námsumhverfi. Yammer er svipað og facebook og býðst skólum eins og annar hugbúnaður í office365 og vinnur líka vel með öðrum netlægum officehugbúnaði.

Það er álitamál hversu vel Twitter hentar í skólastarfi og hvort það er rétt að nemendur setji inn gögn á svo opinn vettvang. Það er hins vegar góð leið að skilja hvernig myllumerki virkar að nota twitter og merkja innlegg með myllumerkjum. Hér er stutt upptaka sem ég gerði um Twitter:

Pinterest

Annað félagsnet sem er auðvelt að nota með snjalltækjum og  hefur nýst nemendum og kennurum vel er Pinterest. Það er gott og einfalt tæki til að safna saman slóðum og setja fram á myndrænan hátt, það er auðveldara að lesa þannig sjónrænar upplýsingar heldur en lista af vefslóðum. Það er auðvelt að leita innan Pinterest og þræða þær slóðir sem aðrir hafa farið og nota tenglasöfn annarra (korka) og pinna þá upp á sín eigin. En Pinterest er viðskiptafyrirtæki sem rekið er af auglýsingatekjum eins og Google og Facebook og það verður að hafa í huga. Pinterest er einfalt, myndrænt og snjalltölvuvænt umhverfi sem nýtist vel þeim sem tekur saman eigið efni og líka þeim sem skoðar efni. Sjá nánar hérna leiðbeiningar mínar  um Pinterest.

Vinsælustu félagsnetin 2017

Það eru margir aðrir en kennarar og námsmenn sem nota félagsnet og sum félagsnet eins LinkedIn eru nauðsynlegt tæki fyrir sumar atvinnugreinar, að  hafa ekki  svæði þar er eins og að vera ekki í símaskránni var fyrir áratug. Vinsælustu (mest sóttu félagsnetin mælt af Alexa netmælingafyrirtækinu ) voru  í byrjun mars 2017 þessi

  • Facebook (statusar og myndir og margt fleira)
  • Youtube (myndbandsupptökur)
  • Twitter (örbloggkerfi, statusar eru með myllumerkjum)
  • LinkedIn (notað mikið í starfi sem upplýsinga og tengslanetasíða)
  • Pinterest (myndrænt tenglasafn, eins og korktafla með mörgum pinnum)
  • Google Plus+ (mjög góð uppsetning, hentar vel til náms)
  • Tumblr (örblogg, hægt að deila ýmis konar efni)
  • Instagram  (myndir og vídeó)
  • VK   (rússneskt félagsnet, svipað facebook)
  • Flickr (myndafélagsnet)

Heimild Top 15 Most Popular Social Networking Sites March 2017

Þróun 2017 varðandi félagsnet
Tímaritið Forbes telur að 5 atriði einkenni þróun félagsmiðla árið 2017

1) Social messaging (fólk sendir skilaboð sín á milli fremur en uppfærir statusa)
2) The fight against fake news (falskar fréttir eru núna mikið vandamál)
3) Authentic content (netútsendingar) dólk sendir beint út frá lífi sín
4) Augmented reality (gagnaukinn veruleiki sem tengist “selfie” þ.e. hvernig sjálfmynd er sett inn í félagsmiðla)
5) Chatbots (masvélar sem tala við þig og afgreiða þig).

Félagsnet leggja áherslu sögur (snapchat, twitter, instagram, facebook) og líka sögur um það sem er efst á baugi á hverjum stað (trending stories) og skilaboð sem hafa stuttan líftíma. Það er áframhaldandi þróun í að búa til og deila myndskeiðum og beinum útsendingum, fréttir og fréttatengt efni miðað við staðsetningu.

(heimild: Forbes: 5 Social Media Trends That Will Dominate 2017)

Snapchat

Snapchat er miðill sem margir hafa ekki tekið alvarlega en einmitt sumir þættir eins og að innlegg þar hverfa eiga þátt í vinsældum Snapchats og verða til þess að ákveðin óformleg miðlun sem byggir meira á að deila efni byggðu á tilfinningum og augnablikshughrifum frekar en að sýna efni. Sjá nánar þessa grein CORNELL RESEARCH STUDY SHOWS HOW SNAPCHAT IS CHANGING THE WAY WE SHARE INFORMATION

Hér er glærusýning sem ber Snapchat saman við önnur félagsnet eins og Instagram og Twitter.

Lokaorð

Félagsmiðlar skipta máli í skólastarfi og færa má rök fyrir að skólaumgjörð framtíðar verði einhvers konar stafrænt félagsnet. Nú erum við á tímum þar sem nettengd snjalltæki sem nemendur og kennarar hafa alltaf á sér eru að verða fyrsta valkostur til að nálgast og senda efni á Internet. Þannig þurfa kennarar að þekkja þau félagsnet sem algengst er að nota með snjalltækjum og þekkja muninn á opnum vettvöngum þar sem nethegðun er vöktuð af utanaðkomandi aðilum (svo sem facebook) og lokaðri netum sem eru án auglýsinga og þar sem gögn og samskipti eru vernduð (svo sem yammer ). Kennarar þurfa einnig að geta notað myndræn kerfi (s.s. Pinterest og Tumblr og Instagram) til að setja efni fram á formi sem höfðar til snjalltækjakynslóðar og geta skipulagt vinnu nemenda þar sem þeir útbúa efni sem miðlað er með slíkum miðlum og þá sérstaklega myndskeið en líka ýmis konar blöndun svo sem texti, stillimyndir og myndskeið og hljóð saman og geta líka tengst slíkt efni með því að nota myllumerki og annars konar flokkun.

Read Full Post »